Fimleikadeild Gróttu hefur endurnýjað mikið af áhöldum á síðastliðnu ári sem að voru orðin úr sér gengin eftir áralanga notkun. Fimleikaáhöld eru mjög dýr og því hefur styrkur frá Seltjarnarnesbæ við áhaldakaup verið ómetanlegur, en þau veittu styrk fyrir kaupum á fiber stökkbraut fyrir hópfimleika og fimleikagólfi fyrir áhaldafimleika. Fimleikadeildin þakkar Seltjarnarnesbæ kærlega fyrir. Auk þess hefur fimleikadeildin keypt hópfimleika dansgólf, stökkbretti, hlauparenning, nýjar rár fyrir tvíslárnar og þrjár jafnvægisslár fyrir rúmar fjórar milljónir.

Nú bíða áhöldin eftir stækkun íþróttamiðstöðvarinnar þannig að hægt sé að nota hópfimleika dansgólfið á hverjum degi og æfa stökkseríur á fiberbrautinni með fullu tilhlaupi. Fullt tilhlaup er 16 metrar en er eingöngu 2 metrar í fimleikasalnum í Gróttu. Auk þess háir það okkar iðkendum verulega að eingöngu er hægt að æfa stökk og trampólin með fullu tilhlaupi þrisvar í viku eða þá daga sem að fimleikadeildin hefur aðgang að litla salnum.

Nú er komið að þeim tímamótum að það lítur út fyrir að fimleikadeildin sé að missa eldri iðkendur til annarra félaga vegna aðstöðunnar. Auk þess gengur illa að ráða þjálfara til deildarinnar þar sem að þeir velja frekar að þjálfa hjá félögum með betri aðstöðu. Verði ekkert af stækkun íþróttamiðstöðvarinnar fljótlega þá þarf að endurskilgreina hlutverk fimleikadeildar Gróttu, á þetta að vera eingöngu félag fyrir yngri iðkendur og uppeldisfélag fyrir önnur fimleikafélög? Eða ætlum við að halda áfram eða vera með gott starf fyrir iðkendur á öllum aldri og á öllum getustigum?