Nanna Guðmundsdóttir vann til tvennra bronsverðlauna á Norðurlandamóti unglinga í áhaldafimleikum sem að fór fram í Helsinki um helgina. Hún komst í úrslit á þremur áhöldum og varð í 3. sæti á stökki og gólfi.

Keppnin hófst með liða- og einstaklingskeppni í fjölþraut. Lið Íslands varð í 4. sæti skammt á eftir Noregi, Finnar urður Norðurlandameistarar eftir æsispennandi keppni við Svía, en einungis munaði 0,15 stigum á liðunum. Í landsliði Íslands voru auk Nönnu þær Fjóla Rún Þorsteinsdóttir Fylki, Inga Sigurðardóttir Ármanni, Margrét Lea Kristinsdóttir Björk, Nína María Guðnadóttir Björk og Thelma Aðalsteinsdóttir Gerplu.

Nanna varð í 10. sæti í fjölþraut með 47,1 stig sem að eru hæstu samanlögð stig sem að hún hefur fengið á alþjóðlegu móti þrátt fyrir að eiga ekki góðan dag á tvíslá. Hún gerði hinsvegar frábæra sláaræfingu í fjölþrautinni og fékk 13,1 í einkunn og var hæst allra keppenda á slá á laugardaginn.

Úrslit á áhöldum þar sem að sex hæstu einstaklingarnir á hverju áhaldi úr fjölþrautinni keppa fóru fram daginn eftir fjölþrautina. Nanna stóð sig frábærlega, hún varð í fimmta sæti á slá og nældi sér í brons á stökki með einkunnina 13,075 og á gólfi með einkunnina 12,75. Inga Sigurðardóttir komst einnig í úrslit á stökki og varð í 5. sæti.

Við óskum Nönnu og þjálfurum hennar til hamingju með þennan frábæra árangur.