Í seinustu viku fór fram Opna Evrópumótið í handknattleik hjá U19 ára landsliði karla. Mótið var haldið í Gautaborg í Svíþjóð. Fulltrúi Gróttu í landsliðinu var Aron Dagur Pálsson, skytta og miðjumaður. Það er skemmst frá því að segja að íslenska liðið vann alla sína leiki á mótinu og þar á meðal gegn Svíum í úrslitaleik sem fór fram í Scandinavium-höllinni fyrir framan 7000 áhorfendur.

Íslenska liðið lagði Finnland, Georgíu og Portúgal í riðlakeppninni. Þegar í milliriðla kom, þá lagði liðið bronshafa Spánar, Rúmena og Hollendinga. Þar sem liðið hafnaði í efsta sæti milliriðilsins lék liðið til úrslita við heimamenn í Svíþjóð. Sá leikur var í járnum stærsta hluta leiksins en undir lokin höfðu Íslendingar betur og unnu 31-29. Frábær stemning var á leiknum en tæplega 1000 Íslendingar létu vel í sér heyra.

Okkar maður, Aron Dagur Pálsson lék vel fyrir liðið á mótinu og skoraði 10 mörk í 7 leikjum. Hann lék stórt hlutverk í vörninni, ýmist sem tvistur í 6-0 vörninni eða fyrir framan í 5-1 vörninni og stal mörgum boltum af andstæðingunum.

Næsta stóra verkefni hjá Aroni Degi og landsliðinu er heimsmeistaramótið sem haldið er í Rússlandi 8. – 20.ágúst næstkomandi. Heimasíðan mun fylgjast náið með liðinu þegar mótið hefst.