Handknattleiksdeild Gróttu hefur gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla fyrir næsta vetur. Við starfinu tekur Björgvin Þór Rúnarsson en hann er handboltaáhugamönnum að góðu kunnur enda var hann á sínum tíma gríðarlega öflugur leikmaður.

Björgvin mun auk þess koma að þjálfun Gróttu U í 2. deildinni á Íslandsmótinu. Björgvin hefur bæði mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari. Hann lék með ÍBV, Selfossi, Víkingi og FH á sínum ferli en auk þess hann lék hann einn A-landsliðsleik. Björgvin þjálfaði í Noregi og Olísdeildarlið ÍR keppnistímabilið 2014-2015 við góðan orðstír.

Í fyrra var hann aðstoðarþjálfari KR sem eftirminnilega tryggði sér sæti í Olísdeildinni en dró þátttöku sína til baka.

Við bjóðum Björgvin Þór hjartanlega velkominn á Nesið og væntum mikils af hans starfi !