Það var margt um manninn og góð stemning á kynningarkvöldi knattspyrnudeildar Gróttu í gærkvöldi. Herlegheitin fóru fram í Innovation House á Eiðistorgi. Þar er Vivaldi á Íslandi með bækistöðvar sínar en eins og kunnugt er var samningur við Vivaldi endurnýjaður á dögunum.

Sjónvarpsmaðurinn og sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason steig fyrstur á stokk og hitaði mannskapinn upp með skemmtilegum sögum úr íslenska boltanum. Þá tók Guðjón Kristinsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, við keflinu en hann hefur þjálfað liðið frá fyrstu æfingu og hafði því frá mörgu að segja. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari meistaraflokks karla, rak svo endahnútinn á góða dagskrá með áhugaverðu erindi um starfið hjá karlaliðinu. Meðal annars sýndi Óskar glæsileg myndbönd sem þjálfarateymið hefur unnið að upp á síðkastið.

Góður rómur var gerður að kynningum þjálfaranna og þótti þetta framtak knattspyrnudeildarinnar til fyrirmyndar. Það er greinilegt að það er metnaður og framsýni í knattspyrnunni á Nesinu!

Strákarnir hefja leik í 2. deild á laugardaginn kl. 14:00 og stelpurnar spila í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins á sunnudaginn kl. 16:00. Báðir leikir eru á heimavelli og hvetjum við að sjálfsögðu allt Gróttufólk til að fjölmenna á Vivaldivöllinn.