Magnús Örn Helgason hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna hjá Gróttu. Maggi er Gróttufólki að góðu kunur en hann hefur þjálfað hjá deildinni í áratug og var yfirþjálfari yngri flokka í þrjú ár. Það má segja að síðustu ár hafi Maggi getið sér gott orð í kvennaboltanum á Íslandi en á þessu ári hefur hann verið þjálfurum U17 ára landsliðsins til aðstoðar.

Guðjón Kristinsson, eða Gaui Kristins, er þjálfari meistaraflokks kvenna. Íris Dögg Gunnarsdóttir, sem var spilandi aðtoðarþjálfari í fyrra, mun áfram starfa sem þjálfari hjá liðinu eða þar til hún mun fjölga mannkyninu síðar í sumar. Magnús mun halda áfram sem þjálfari 2. flokks kvenna og 3. flokks karla og verður því í hlutastarfi í meistaraflokknum.

Guðjón og Magnús stýrðu 4. flokki karla á Norway Cup árið 2010

 

Maggi og Gaui unnu saman á árunum 2010-2012 en í samtali við Gróttusport fagnaði Gaui því að fá Magga inn í þjálfarateymið:

Ég fagna komu Magnúsar inn í meistaraflokkinn. Við þekkjumst vel frá fyrri tímum og það er alveg ljóst að Maggi hefur eflst mikið sem þjálfari á síðustu árum. Það er spennandi sumar framundan og Maggi kemur klárlega með nýja vídd inn í starfið hjá okkur.

Magnús á hliðarlínunni gegn Keflavík í 2. flokki kvenna í sumar

 

Gróttasport náði einnig tali af Magnúsi Erni sem kvaðst spenntur fyrir nýju verkefni:

Þetta er mitt fyrsta verkefni í meistaraflokki og það er gaman að fá að hjálpa Gróttuliðinu. Stelpurnar tóku miklum framförum í fyrra undir stjórn Gauja og Írisar og nú er liðið tekið alvarlega. Kvennaboltinn hefur verið vaxandi í Gróttu síðustu ár og hluti af því ferli er að efla meistaraflokkinn.

Gróttasport þakkar þeim Gauja og Magga fyrir spjallið og hvetur fólk til að fjölmenna á Hertz-völlinn á mánudag þegar stelpurnar sækja ÍR heim í bikarnum.

Einnig minnum við á leik kvöldsins í 2. deild karla en kl. 18:00 spila strákarnir við Kára í 3. umferð Íslandsmótsins í Akraneshöllinni.