Gengið verður til sveitastjórnarkosninga á laugardaginn og að þessu sinni bjóða fjórir listar fram á Seltjarnarnesi. Fréttastofa Gróttusport sendi öllum oddvitum þrjár spurningar er varða starf knattspyrnudeildarinnar beint eða óbeint og má sjá spurningarnar og svör frambjóðenda í þessari frétt.

Spurning 1

Knattspyrnudeild Gróttu hefur síðustu ár verið rekin af mikilli skynsemi. Þjálfarar og leikmenn hafa ávallt fengið greitt á réttum tíma og mikil ráðdeild hefur verið sýnd í rekstri til að vera réttu meginn við strikið. Iðkendagjöld hafa hækkað jafnt og þétt síðustu ár – þau eru í hærri kantinum miðað við önnur félög enda er þjónusta við iðkendur góð.

Síðustu tímabil hefur öflugt þjálfarateymi komið að þjálfun yngri flokkanna og hefur deildin náð að laða að sér frambærilega þjálfara úr öðrum liðum. Unglingastarfið hefur vakið athygli og hafa þjálfarar Gróttu haldið fyrirlestra um stefnumótun og hugmyndafræði deildarinnar, meðal annars hjá KSÍ og Háskólanum í Reykjavík.

Starf yfirþjálfara yngri flokka er gríðarlega mikilvægt enda ber sá sem gegnir því starfi ábyrgð á því faglega starfi sem unnið er hjá iðkendum frá 4 ára og upp í 19 ára. Yfirþjálfarinn er yfirmaður þeirra þjálfara sem starfa hjá deildinni og tengiliður við aðrar deildir Gróttu, KSÍ og stjórn deildarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Undanfarin ár hefur fjárhagsáætlun knattspyrnudeildar ekki dugað til að greiða yfirþjálfara yngri flokka laun sem samsvara launum frístundaleiðbeinanda eða öðrum sambærilegum störfum sem greidd eru af sveitarfélögunum.

Ef þinn listi kemst til valda – mun þá koma til greina að yfirþjálfari yngri flokka fái a.m.k. hluta launa sinn greidd af bænum svo deildin geti haldið áfram að veita framúrskarandi þjónustu fyrir iðkendur, sem nánast allir búa á Seltjarnarnesi?

XD – Sjálfstæðisflokkur:

Nýr samningur var undirritaður við Gróttu í fyrra þar sem framlög til félagsins voru hækkuð um liðlega 30%. Samningurinn gildir til 2020.

Seltjarnarnesbær hefur haft þann háttinn á að semja beint við aðalstjórn Gróttu, sem gerir svo tillögu um hvernig styrkjum er skipt milli deilda. Yngri flokkar Gróttu eru og munu vera í forgrunni eins og áður. Þetta er eitt af því sem kæmi til skoðunar í nýjum samningi, ekki fyrr.

Grótta hefur enn fremur tekið yfir rekstur íþróttamannvirkja á kjörtímabilinu og eitt af markmiðunum var að íþróttafélagið sæi tækifæri til að nýta fjármagn enn betur.

XF – Fyrir Seltjarnarnes:

Það er megin inntak okkar stefnu að styðja grunnþjónustu við Seltirninga og láta þjónustu við bæjarbúa vera í forgang. Því miður hafa verið teknar ákvarðanir um mikil fjárútlát bæði í rekstur og fjárfestingar sem fyrst og fremst gagnast  íbúum utan Seltjarnarness. Við getum aðeins svarað þessari tilteknu spurningu með því að lofa að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru verði nýttir til þjónustu við bæjarbúa, en það væri óábyrgt að lofa miklu þegar bæjarsjóður er rekinn með tapi. Nú þegar er í gildi þjónustusamningur við Gróttu um rekstur íþróttamannvirkja og með honum fylgja töluverðar  greiðslur vegna stöðugilda hjá félaginu. Við munum áfram styðja sambærilegan samning og vonum að þeir fjármunir  muni einnig nýtast deildum félagsins, knattspyrnu, handknattleik og fimleikum.

XN – Viðreisn/Neslistinn:

Við teljum að til staðar séu mörg sameiginleg sókarfæri fyrir Gróttu og bæinn. Bærinn á að veita Gróttu þann stuðning sem félagið þarf til þess að geta staðið að því íþróttastarfi sem íbúarnir óska eftir. Bærinn er jú ekki annað en íbúarnir. Hinsvegar teljum við ekki vænlega leið að einstakir starfsmenn Gróttu verði launþegar hjá bænum. Það myndi vega að sjálfstæði Gróttu sem íþróttafélags og setja slæmt fordæmi heilt yfir. Skoða þarf aðrar leiðir fyrir bæinn til að styðja frekar við starf Gróttu.

XS – Samfylking:

Starfið í Gróttu er ómetanlegt fyrir Seltjarnarnesbæ og börnin sem fá að alast upp í gegnum félagið. Seltjarnarnesbær og Grótta hafa unnið eftir því fyrirkomulagi að gera samstarfssamninga sem nær utan um styrkveitingar bæjarins til Gróttu. Grótta sér svo um að forgangsraða og ráðstafa þeim fjármunum á milli deilda og verkefna. Í janúar 2017 var undirritaður nýr samningur og var hann kynntur fyrir bæjarstjórn undir þeim formerkjum að mikil sátt væri um samninginn hjá Gróttu enda var styrkupphæðin hækkuð um 30% frá eldri samningi.

Við teljum að þetta sé rétta fyrirkomulagið þar sem þjálfarar og aðrir starfsmenn Gróttu heyra undir Gróttu en ekki bæinn og eiga því heima á launaskrá hjá Gróttu. Ef Grótta telur sig skorta fjármagn til að halda úti starfinu þá teljum við mikilvægt að það verði skoðað þegar samningurinn er endurnýjaður á næsta ári svo öflugt starfið í Gróttu fái áfram að blómstra.

Spurning 2

Gervigrasvöllurinn við Suðurströnd var tekinn í notkun árið 2006 og þremur árum síðar opnuðu stúkan og vallarhúsið. Til stóð að byggja þak yfir stúkuna en vegna efnahagshrunsins var ákveðið að bíða með þá framkvæmd. Áhorfendur á Vivaldivellinum eru enn berskjaldaðir fyrir veðri og vindum og ekkert bólar á þakinu.

Mun þak rísa yfir stúkuna á Vivaldivellinum á næsta kjörtímabili komist þinn listi til valda? 

XD – Sjálfstæðisflokkur:

Það er ólíklegt en ekki útilokað, ekki síst með samhentu átaki allra bæjarbúa, fyrirtækja og velunnara. Stúkan er ókláruð, þ.e. gert var ráð fyrir þaki. Nýtt íþróttahús er núna í forgangi, auk fjölda annarra verkefna, m.a. nýr leiksskóli.

Þetta er hins vegar á stefnuskránni að klára þak yfir stúkuna, teikningar liggja fyrir en á meðan stækkun stendur yfir á íþróttamiðstöðinni verður ekki farið í þessa framkvæmd samhliða. Við höfum greitt leigu fyrir smáhýsið, sem blaðamenn hafa haft aðstöðu í fyrir hvern leik.

XF – Fyrir Seltjarnarnes:

Stúka knattspyrnudeildar mun líklega líða fyrir aðrar risastórar fjárfestingar sem þegar eru hafnar og taka munu megnið af framkvæmdafé bæjarins næstu árin. Við getum ekki lofað því að á næsta kjörtímabili verði svigrúm fyrir þessa framkvæmd en vonum að okkur takist svo vel að hreinsa til í rekstrinum að huga megi að þessari framkvæmd.

XN – Viðreisn/Neslistinn:

Bærinn þarf að fjárfesta í innviðum á mörgum sviðum, þar á meðal í íþróttamannvirkjum. Þak á stúkuna er augljóslega hluti af þeirri fjárfestingu, sé litið til næstu fjögurra ára. Viðreisn/Neslisti vill að rausnarlega sé staðið að fjárveitingum til uppbyggingar íþróttamannvirkja, þannig að þau mannvirki sem fyrir eru sé vel við haldið og þau sem byggð eru séu vönduð og traust þannig að þau nýtist vel. Forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja teljum við að eigi að vera unnin í samstarfi bæjaryfirvalda og íþróttafélagsins.

XS – Samfylking:

Aðstaðan á Vivaldi vellinum er algjörlega til fyrirmyndar og hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með starfi Knattspyrnudeildar Gróttu eflast og dafna samhliða því að gervigrasvöllurinn var tekinn í notkun. Að yfirbyggja stúkuna er ekki á framkvæmdaráætlun okkar fyrir næsta kjörtímabil enda talsvert um aðrar framkvæmdir sem bærinn stendur í. Að yfirbyggja stúkuna væri hins vegar frábær hugmynd til að senda inn í Nesið okkar kosningakerfið og gefa bæjarbúum tækifæri á að forgangsraða fjármagni í verkefnið.

Spurning 3

Hér má sjá fjölda barna á Seltjarnarnesi frá 0-19 ára í póstnúmeri 170 frá árinu 1998. Tölur fengnar frá vef Hagstofunnar:

1998: 1454 börn
2002: 1402
2006: 1305
2010: 1171
2014: 1124
2018: 1136

Knattspyrnudeild Gróttu er lítil deild á landsvísu og hver iðkandi skiptir máli. Fjöldi barna í bænum hefur áhrif á starfið en flokkar Gróttu hafa átt erfitt uppdráttar í minnstu árgöngunum sem hafa alist upp á Nesinu. Sem betur fer hefur börnum á aldrinum 0-9 ára farið fjölgandi frá árinu 2013 en spurningin er hvort að sú þróun muni halda áfram í rétta átt.

Mun þinn listi, komist hann til valda, gera eitthvað til að auka möguleika barnafólks á að setjast að á Seltjarnarnesi?

XD – Sjálfstæðisflokkur:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft meirihluta í bæjarstjórn frá því bæjarfélagið var sett á laggirnar. Saga Gróttu er samofin metnaði flokksins til að standa vel að barna og unglingastarfi, ekki síst með forvarnir að leiðarljósi. Margir frambjóðendur flokksins hafa setið í stjórn félagsins í gegnum árin og látið gott af sér leiða í sjálfboðastarfi félagsins og gera enn.

XF – Fyrir Seltjarnarnes:

Mikið er nú þegar gert til að laða að barnafjölskyldur: ágætur leikskóli á samkeppnishæfu verði, góður grunnskóli, mikill stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf barna, lægri skattar en gengur og gerist í nágrannasveitarfélögum. Mikið meira en þetta getur sveitarfélag varla gert. Allar tilraunir til að styðja fjárhagslega við bakið á tilteknum hópum í kaupum á húsnæði munu aðeins hækka húsnæðisverðið enn frekar. Það er líka lán að fasteignir á Seltjarnarnesi halda vel verðgilidi sínu og eru auðseljanlegar. Markaðurinn ræður verði á húsnæði og því fáum við ekki breytt, og væri heldur ekki æskilegt.

Í okkar hóp hefur þetta verið rætt og helst hefur komið til greina (sem er hægt) að við nýbyggingar setji sveitarfélagið skilyrði um að ákveðinn hluti íbúðar verði t.d. litlar íbúðir, sem gætu því hentað yngra fólki. Og slíkt gæti líka hentað eldra fólki sem aftur losaði stærri eignir sem yngra fólk flytti í.

Spá Hagstofunnar gerir hins vegar ráð fyrir heilbrigðri fjölgun yngra fólks á Nesinu og sú spá virðist vera að ganga eftir skv. því sem við heyrum frá t.d. yfirmönnum leikskólans. Svo líklega gerist þetta að sjálfu sér.

XN – Viðreisn/Neslistinn:

Seltjarnarnes er eftirsótt sveitarfélag fyrir barnafólk. Þar komast færri að en vilja. Bærinn hefur takmarkaðar bjargir þegar kemur að því að stýra íbúaþróun. Þar kemur einkum til að ekkert byggingarland er lengur í eigu bæjarins. Það byggingarland sem enn er óbyggt er í eigu einkaaðila og takmarkað hvernig bærinn getur haft áhrif á hverjir kaupa það húsnæði sem þar er byggt. Það sem bærinn getur gert til þess að fjölga fjölskyldum með börn er að ýta undir byggingu lítilla íbúða á stökum reitum þar sem gamalt húsnæði er fyrir, sem uppfyllir ekki lengur nútímakröfur. Einnig telur N-listinn að skoða eigi frekari uppbyggingu í miðbæ Seltjarnarness, þar sem litlar íbúðir fyrir ungt fólk gætu vel átt heima. Stefna N-listans er að Seltjarnarnes verði áfram fjölbreytt samfélag og mun því listinn, komist hann til valda í bæjarstjórn ýta undir þá þróun með þeim ráðum sem eru bæjarstjórn tæk.

XS – Samfylking:

Já heldur betur! Allt of lengi hefur sú stefna verið rekin af bænum að engar kvaðir eru settar á stærð íbúða sem byggðar eru á Nesinu. Þetta hefur leitt til þess að algjör skortur er á litlu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum. Húsnæðismarkaðurinn á Nesinu er eins og stigi þar sem að neðstu þrepin vantar. Við í Samfylkingunni viljum setja skýr húsnæðismarkmið á Nesinu þar sem á öllum reitum þar sem reist er nýtt íbúðarhúsnæði þurfi hluti þess að vera litlar íbúðir.