RedBull, Ripper, Amino Energy, Magic, Burn, Nocco…allt eru þetta nöfn á svokölluðum koffíndrykkjum. Drykkjum sem eru markaðssettir á spennandi hátt og eru sagðir gefa mikla orku, kraft og einbeitingu. Neysla koffíndrykkja hefur farið vaxandi á síðustu árum og að undanförnu hefur borið á vinsældum drykkjanna meðal unglinga. En er það hollt fyrir ungt fólk í íþróttum að neyta koffíndrykkja? Til að komast til botns í málinu heyrði fréttastofa Gróttusport hljóðið í íþróttanæringarfræðingnum Agnesi Þóru Árnadóttur sem hafði þetta um málið að segja:

Agnes er Gróttufólki að góðu kunn en hún spilaði handbolta með meistaraflokki fyrir nokkrum árum og hélt góða fyrirlestra fyrir alla leikmenn yngri flokkanna á síðasta tímabili.

„Mér hefur þótt mjög leiðinlegt að sjá hvernig koffíndrykkir hafa verið markaðssettir sem heilsuvara, sem þeir eru svo sannarlega ekki. Fólk er hvatt til þess að neyta þessara drykkja samhliða íþróttaiðkun og heilsusamlegu líferni. Á Íslandi hefur undanfarið ríkt algjört Amino Energy og Nocco æði meðal ungs fólks og sér maður þessa drykki vera auglýsta mjög víða.

Þrátt fyrir að ýmsar „samfélagsmiðlastjörnur“ flaggi neyslu þessara drykkja þýðir það ekki að árangur þeirra megi tengja beint við neyslu drykkjanna. Margir sem neyta koffíndrykkja trúa því að þeir hafi bætandi áhrif á íþróttaiðkun og heilsu og átta sig oft ekki á mögulegri skaðsemi drykkjanna – sérstaklega fyrir börn, unglinga og ungmenni.
Í þessum drykkjum er mikið magn af koffíni (koffín, gúrana, grænt-te) og eftir því sem einstaklingurinn er léttari því meira koffín fær hann á kílógramm úr hverjum drykk. Þar af leiðandi eru þessir drykkir sérstaklega varasamir fyrir léttari einstaklinga. Nokkur af þeim áhrifum sem orkudrykkir geta haft á fólk er:

• Aukin kvíði
• Hegðunarbreytingar
• Erfiðleikar með svefn
• Ofþjálfun
• Skjálfti
• Pirringur
• Ógleði
• Aukin hjartsláttur
• Hækkaður blóðþrýstingur
• Meltingatruflanir

Orkudrykkir eru einnig stútfullir af gervisykri og innihaldslýsingin er ekki ólík diet-gosdrykkjum, bara meira koffín. Tvær skeiðar af Amino Energy innihalda 180 mg af koffíni og það er mælt með 6 skeiðum fyrir æfingu á umbúðunum. Kaffibolli inniheldur 60-100 mg. 6 skeiðar hafa þá svipað koffínmagn og 6 kaffibollar. Dós af Nocco með koffíni inniheldur á bilinu 105-180 mg af koffíni (1-2 kaffibollar). Báðir drykkirnir eru stútfullir af gervisykri og öðrum gerviefnum. Því hvet ég ykkur til að hugsa hvort þið mynduð taka með ykkur light kók og nokkra kaffibolla á æfingu til að bæta árangur og auka heilsu. Og hvort þið mynduð leyfa börnunum ykkar að gera það.

Það er ekki gott að venja líkaman á orkudrykki. Ef að þú ert rosalega þreytt/þreyttur, reyndu þá frekar að passa uppá svefninn og ef þú ert orkulaus passaðu þá frekar uppá mataræðið. Svefn er lykilatriði til þess að vera besta útgáfan af sjálfum þér. Banani eða glas af appelsínudjús (auðmelt kolvetni) eru mun betri kostur fyrir æfingu ef að þú ert orkulaus.

Það er alltaf val fyrir fullorðinn einstakling hvort hann/hún vilji neyta orkudrykkja, en það ætti ekki að vera val fyrir börn og unglinga. Krakkar! – ég hvet ykkur því til þess að sleppa þessum drykkjum algjörlega og á sama tíma brýni ég fyrir foreldrum að vera góðar fyrirmyndir og auðvitað fylgjast vel með því sem að börnin og unglingarnir ykkar eru að drekka og borða. „

Gróttasport þakkar Agnesi kærlega fyrir spjallið og við hvetjum fólk að sjálfsögðu til að fara vel yfir ráðleggingarnar frá henni.