Halldór Árnason hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari yngri flokka hjá knattspyrnudeild Gróttu. Halldór tekur við starfinu af Bjarka Má Ólafssyni sem hefur látið af störfum sem yfirþjálfari að eigin ósk. Bjarki Már mun þó áfram koma að afmörkuðum verkefnum í starfsemi knattspyrnudeildar.

Halldór hefur undanfarið ár starfað hjá Gróttu sem aðalþjálfari 2. og 5.flokks karla og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Halldór er 34 ára gamall og er fæddur og uppalinn Vesturbæingur. Hann lék með KR upp yngri flokkana en skipti yfir í Gróttu 18 ára gamall. Halldór spilaði á næstu árum 45 meistaraflokksleiki fyrir Gróttu áður en hann skipti yfir í KV þar sem hann lauk ferlinum. Halldór byrjaði að þjálfa yngri flokka hjá KR árið 2007 og fór fljótt að láta til sín taka. Halldór var um tíma yfirþjálfari yngri flokka hjá KR og stýrði liði KV í 1. og 2. deild í þrjú ár ásamt Páli Kristjánssyni.

Fyrir þremur árum gekk Halldór til liðs við öflugt yngri flokka starf Stjörnunnar þar sem hann stýrði 2. flokki og afreksþjálfun.

Halldór er með B.A. gráðu í félagsfræði ásamt því að hafa stundað meistaranám í íþrótta- og heilsufræði. Hann lauk UEFA A þjálfaragráðu 2014 og UEFA A Elite Youth þjálfaragráðu í apríl 2018.

Starf Halldórs sem yfirþjálfara hjá Gróttu fellur vel að áframhaldandi störfum með meistaraflokki karla en að auki mun hann sjá um afreksstarf yngri flokka, sinna þjálfun í yngri flokki og taka þátt í endurskoðun Gróttuleiðarinnar. Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu væntir mikils af samstarfinu við Halldór á þeim spennandi tímum sem eru framundan hjá félaginu.

Barna- og unglingaráð Knattspyrnudeilar Gróttu þakkar Bjarka Má Ólafssyni fyrir sérstaklega vel unnin störf sem yfirþjálfari knattspyrnudeildar og býður Halldór velkominn til starfa!