Í morgun tilkynnti Óskar Hrafn Þorvaldsson okkur að hann hefði ákveðið að segja upp samningi sínum við Gróttu og sigla á önnur mið. Stjórn deildarinnar lagði mikið í sölurnar til að tryggja áframhaldandi veru Óskars Hrafns í herbúðum félagsins, en virðir ákvörðun hans. Óskar vann frábært starf hjá félaginu, sem við þökkum honum fyrir hönd leikmanna, starfsfólks, stjórnar og stuðningsmanna. Unnið er að ráðningu eftirmanns hans í starfið.

Framundan er spennandi ævintýri fyrir hið unga og hugrakka lið félagsins. Við finnum þann mikla meðbyr sem er með liðinu og starf okkar næstu misseri miðar að því að undirbúa drengina eins og best verður á kosið fyrir Pepsi max deildina. Allt Gróttufólk stendur þétt við bakið á sínum mönnum og mun mæta þeim nýju áskorunum sem bíða.