Óskar Hrafn Þorvaldsson var kosinn þjálfari ársins hjá samtökum íþróttafréttamanna. Hinir tveir sem komu til greina voru handboltaþjálfararnir Alfreð Gíslason og Patrekur Jóhannesson. Eins og allir vita stýrði Óskar meistaraflokki karla hjá Gróttu síðustu tvö tímabil en í ár sigraði liðið Inkasso-deildina og mun því spila í efstu deild í fyrsta sinn næsta sumar. Árangur sumarsins var sannkallað afrek hjá Óskari og hans mönnum en Grótta var nýliði í deildinni og var spáð 9. sæti fyrir tímabilið. Þar að auki var leikmannahópurinn ungur og óreyndur, nánast sami mannskapur og komst upp úr 2. deild haustið 2018.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Óskari, sem nú þjálfar meistaraflokk karla hjá Breiðabliki, til hamingju með þennan verðskuldaða titil!