Hópaskipting í fimleikum hefur það að leiðarljósi að iðkendur fái þjálfun við hæfi. Til að framfarir eigi sér stað hjá iðkendum er mikilvægt að æfingar séu hæfilega krefjandi, þá er alltaf einhver hvatning til staðar. Því mega æfingar hvorki vera of erfiðar né of léttar þannig að iðkandinn missi ekki áhugann. Því er mikilvægt að iðkendur innan hvers hóps séu á sama/svipuðu getustigi svo þeir fái þjálfun við hæfi svo þeir megi þroskast og njóta þjálfunarinnar.

Í fimleikadeild Gróttu er iðkendum skipt í 10-16 manna hópa þar sem einstaklingsmiðuð þjálfun er höfð að leiðarljósi. Þau viðmið sem notuð eru til að raða í hópa eru m.a.:

  • Færni iðkandans á áhöldum
  • Skilningur á æfingum, reglum og fyrirmælum
  • Styrkur og hraði
  • Reglur FSÍ og FIG.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er ekki í öllum tilvikum hægt að gera ráð fyrir því að vinkonur/vinir geti verið saman í hóp. Vilji vinkonur/vinir æfa saman er reglan sú að sá iðkandi sem er lengra kominn þurfi að færa sig niður um hóp, slíkt er þó einungis mögulegt í þeim tilvikum þar sem laust pláss er í viðkomandi hóp.

Æfingartíminn er allt frá 1 klst. til 21 klst. í viku. Þeir iðkendur sem eru lengra komnir þurfa lengri æfingartíma. Af þessum sökum getur vikulegur fjöldi æfinga hjá einstaklingum á sama aldri verið mismunandi. Þegar iðkendur hafa náð tökum á grunnæfingum þurfa þeir lengri æfingatíma þar sem þeir þurfa að ná tökum á fleiri og flóknari æfingum.