Handknattleiksdeild Gróttu var stofnuð 2.nóvember árið 1969 en árin á undan var engin sérstök deildaskipting verið innan félagsins. Það var síðan ekki fyrr en 1983 að 3.flokkur karla varð fyrstur flokka Gróttu til að verða Íslandsmeistari. Síðan þá hefur Handknattleiksdeild Grótta verið þekkt fyrir framúrskarandi barna -og unglingastarf þar sem hátt hlutfall barna og unglinga taka þátt í starfinu.

Segja má að árið 2015 hafi verið stærsta ár í sögu félagsins þegar meistaraflokkur kvenna setti nýtt viðmið hjá félaginu. Kvennaliðið vann þá þrjá stærstu titla vetrarins en það varð bikarmeistari í febrúar, deildarmeistari í mars og Íslandsmeistari í apríl. Nú þegar tímabilið 2015-2016 gengur í garð eru bæði meistaraflokksliðin í Olísdeildinni en það er í fyrsta skipti sem það gerist í langan tíma.