Æft með eldri flokki – hverjir og af hverju?

Æft með eldri flokki – hverjir og af hverju?

10. mars, 2017

Knattspyrnudeild Gróttu leitast við að gefa iðkendum sínum verkefni við hæfi undir öllum kringumstæðum. Það þýðir að stundum þurfa iðkendur að æfa með eldri flokki til að fá viðeigandi áskoranir.

Grótta er lítið íþróttafélag samanborið við önnur félög á höfuðborgarsvæðinu. Í yngstu flokkum knattspyrnudeildarinnar æfa að jafnaði um 30-35 strákar og 20-25 stelpur á meðan stóru félögin hafa á að skipa um 100 drengjum eða fleiri í hverjum flokki og jafnvel 40-50 stelpum. Það er því ljóst að breiddin er ekki okkar sterkasta hlið og því er það nokkuð algengt hjá Gróttu að efnilegir iðkendur æfi með eldri flokki.

Þjálfari sem telur að einhver af iðkendum sínum eigi að æfa með eldri flokki ráðfærir sig við yfirþjálfara knattspyrnudeildar. Eftir að yfirþjálfari hefur skoðað málið og fylgst með viðkomandi iðkanda er tekin ákvörðun um hvort að hann muni hefja æfingar með eldri flokki.

Knattspyrnudeild Gróttu hefur eftirfarandi atriði til viðmiðunar:

a) Iðkendur knattspyrnudeildarinnar sem eru 12 ára og yngri æfa ekki oftar en 5 sinnum í viku. Þeir sem eldri eru æfa ekki oftar en 6 sinnum í viku

b) Ef að iðkandi sem er í 5. flokki eða eldri á fast sæti í A-liði flokksins fyrir ofan skulu leikir þess flokks ganga fyrir leikjum í hans aldursflokki.
Dæmi: Leikmaður 3. flokks sem er fastamaður í A-liði 2. flokks spilar ekki með 3. flokki nema langt sé á milli leikja í 2. flokki.

c) Stöðugt endurmat á sér stað þegar iðkendur eru að æfa með eldri flokki. Það getur hentað X vel að æfa upp fyrir sig í dag en ekki eins vel ári síðar á meðan því getur verið öfugt farið með Y.

d) Þjálfarar og yfirþjálfarar stjórna því hverjir æfa með eldri flokki og hve oft. Ekki foreldrar eða iðkendurnir sjálfir.