Getuskipting

Getuskipting

4. janúar, 2017

We sell quality

Knattspyrnudeild Gróttu leggur áherslu á að allir iðkendur deildarinnar fái verkefni við sitt hæfi og eigi sem besta möguleika á að taka framförum í fótbolta. Til að það sé mögulegt er iðkendum skipt eftir getu á meirihluta æfinga og stundum æfa getumiklir iðkendur með eldri flokkum til að fá næga örvun. Hér verður greint frá hugmyndafræðinni sem liggur að baki í þessari nálgun.

Í Bandaríkjunum æfa um 3 milljónir barna og unglinga knattspyrnu og leggur knattspyrnusamband Bandaríkjanna áherslu á að æft sé í getuskiptum hópum frá 4 ára aldri. Rannsóknir US Youth Soccer hafa meðal annars sýnt fram á að:

  • Brottfall hjá þeim sem æfðu hjá félögum sem getuskiptu var minna en hjá þeim félögum sem getuskiptu ekki.
  • Samanburður sýndi fram á að leikmenn í getuskiptum hópum bættu sig hlutfallslega meira miðað við leikmenn í blönduðum hópum. Mesti munurinn á bætingu var hjá þeim getuminnstu.
  • Í blönduðum hópum snertu líkamlega bráðþroska börn boltann 2-3 sinnum oftar en líkamlega seinþroska börn.

Árið 2012 gerði Þórður Einarsson, þjálfari hjá Leikni, örrannsókn þar sem leikmönnum, A, B, C og D-liðs var blandað saman og leikið á tvö mörk. Niðurstöður voru í takt við niðurstöður US Youth Soccer þar sem A-liðsleikmenn (þeir getumestu) voru margfalt lengur með boltann og snertu hann mikið oftar en C- og D-liðsleikmennirnir (þeir getuminnstu).

Rannsóknir Gould og Petlichkoff (1988) og Weinberg og Gould (2007) hafa sýnt fram á ástæður þess að börn leggja stund á íþróttir. Þær eru meðal annars að:

  • Læra nýja færni
  • Hafa gaman
  • Fá útrás
  • Upplifa spennu
  • Ná árangri
  • Vera með vinum og/eða eignast nýja vini
  • Fá líkamlega hreyfingu

Mun getulítill og/eða líkamlega seinþroska einstaklingur upplifa áðurnefnd atriði þegar hann spilar með getumeiri einstaklingum sem hafa kannski æft lengur en hann? Mun hann bæta sig í fótbolta? Nær hann að skora mark? Verður gaman hjá honum?

Í þessu samhengi má sömuleiðis skoða hugtakið flæði (e. flow) sem sett var fram af sálfræðingnum Mihaly Csikszentmihalyi og á vel við í íþróttaþjálfun. Flæði næst þegar markmið eru skýr, endurgjöf er markviss og jafnvægi er á milli áskoranna og færni. Í flæði líður fólki vel og það hefur fulla einbeitingu á því sem það er að gera. Myndin á næstu blaðsíðu lýsir þessu vel þar sem flæðið er mitt á milli kvíða og leiða. Hætt er við að börn finni fyrir leiða ef þau fá ekki nægar áskoranir á æfingum og í keppni og sömuleiðis getur kvíði tekið völdin ef börn ráða illa við þau verkefni sem þeim eru gefin.

Markmiðið með getuskiptri þjálfun er því að gefa öllum verkefni og tækifæri við sitt hæfi. Með getuskiptum hópum er hægt að þyngja æfingar fyrir þá sem eru lengra komnir og einfalda fyrir þá sem komnir eru skemmra á veg. Auðvelt er að líkja þessari aðferð við skólastarf þar sem fluglæs nemandi á varla að vinna nákvæmlega eins verkefni og nemandi sem enn er að læra stafina.

Þó að hugmyndafræðin sé góð og rannsóknir mæli með getuskiptri nálgun hefur þjálfarinn alltaf úrslitaáhrif um hvernig tekst til. Þjálfurum Gróttu ber að sinna öllum iðkendum og ýta undir þá upplifun barnanna að þau skipti öll máli. Ennfremur er mikilvægt að þjálfarar leggi ríka áherslu á að metingur meðal leikmanna sé ekki af hinu góða og ýti undir hugsunina um að „við erum Grótta”.