Meiðsli

Meiðsli

10. mars, 2017

Fyrstu viðbrögð við meiðslum

Þegar íþróttamenn meiðast er mikilvægt að bregðast rétt við. Sjúkraþjálfarar eru fagmenn á sviði meiðsla og því ætti að vera forgangsmál fyrir íþróttamenn á öllum aldri að láta sjúkraþjálfara meta áverka og meiðsli.

Ýmislegt er þó hægt að gera til að flýta fyrir bata. Meðfylgjandi texti er fenginn að láni frá Friðriki Ellerti Jónssyni, sjúkraþjálfara A-landsliðs karla.

P.R.I.C.E. meðferðin

Byrja skal PRICE meðferð sem fyrst eftir áverka og halda henni áfram fyrstu tvo dagana (t.d. eftir vöðva- og liðbandatognanir)

1. Vernda svæðið P (protection). Fyrirbyggja frekari skaða. T.d. með því að nota hækjur eða spelku

2. Hvíld R (rest). Hvíla skaddaða líkamshlutann og leita ráðlegginga frá sjúkraþjálfara varðandi endurhæfingu.

3. Ís I (Ice). Kæla í ca 15-20 mínútur á tveggja tíma fresti. Nota kælipoka, ísmola, kalt vatn eða snjó.

4. Þrýstingur C (compression). Að setja þrýsting á meidda svæðið er mikilvægasti hluti PRICE meðferðarinnar. Nota þrýsting frá upphafi meðferðar (einnig þegar
kælt er). Gott að skera út fyllt „U“ í kringum ökklakúlu ef um
ökklatognun er að ræða eða setja c.a. 1 cm þykkan svamp þar
sem vöðvatognun er til að fá meiri þrýsting yfir áverkasvæðið

5. Hálega E (elevation). Vera hátt uppi (c.a. 30 cm fyrir ofan hæð
hjarta) með skaðaða útliminn á meðan kælt er. Helst á að vera
með skaðaða svæðið í hálegu sem mestan tíma af þessum
fyrstu tveimur sólarhringum.

Höfuðhögg

Þjálfarar skulu láta foreldra vita ef iðkandi fær höfuðhögg á æfingu.
Mikilvægt er að hafa gott auga með einstaklingi sem hlotið hefur
höfuðhögg næsta sólarhringinn. Ennfremur er brýnt að hvílast vel í kjölfar
höfuðhöggs.

Ef leikmaður fær höfuðhögg skal taka hann af leikvelli og meta ástand
hans. Leiki grunur á að hann hafi fengið heilahristing skal viðkomandi
ekki halda keppni áfram. Ef leikmaður missir meðvitund við höfuðhögg
skal alltaf leita til læknis.

Helstu einkenni heilahristings eru:
* Höfuðverkur
* Minnistap
* Ógleði eða uppköst
* Svimi
* Sjóntruflanir
* Rugl (confusion)
* Hljóðfælni

Í kjölfar heilahristings skulu leikmaður og þjálfari fylgja eftir „Return to
play” ráðleggingum FIFA. Þar er álag aukið stig frá stigi þar til leikmaður
hefur náð fullum bata eftir höfuðhöggið.