Skipt í lið

Skipt í lið

4. janúar, 2017

Hvað er þetta A, B, C og D?

Að iðkandi fái verkefni við sitt hæfi er eitt af meginmarkmiðum yngri flokka þjálfunar í knattspyrnu sem og öðrum íþróttagreinum. Þegar barn æfir og keppir með og á móti iðkendum sem eru svipaðir að getu eru mestar líkur á að það njóti sín í íþróttinni og taki stöðugum framförum. Hjá knattspyrnudeild Gróttu æfa iðkendur frá 7. flokki að jafnaði í getuskiptum hópum en lesa má nánar um það hér: ?

Með þetta meginmarkmið í huga – að allir fái verkefni við sitt hæfi – er yfirleitt keppt í getuskiptum liðum á mótum á vegum KSÍ og aðildafélaganna. Fjöldi getuflokka er misjafn, sem dæmi er keppt í A-G-liðum á N1 mótinu á Akureyri en á Íslandsmóti er keppt í A-D-liðum. Félögin eru misstór og því eru stundum fleiri en eitt lið frá hverju félagi í sama getuflokki á meðan önnur félög ná ekki að manna lið í öllum flokkum.

Í yngri flokkunum skiptir mestu máli að freista þess að fá jafna leiki og markmiðið ætti ekki að vera metingur milli félaga. Því tefla fjölmennari félög oft fram tveimur A-liðum á meðan fámennari félög senda A-lið sitt í B-liðakeppni eða C-lið sitt í D-liðakeppni, svo einhver dæmi séu tekin. Til dæmis æfa um 2000 drengir í 5. flokki fótbolta á Íslandi. Það segir sig sjálft að getumunur milli svo margra iðkenda er mikill og því afskaplega mikilvægt að skipuleggja keppnir þannig að leikir verði sem jafnastir. Það græðir enginn á því að vinna eða tapa 10-0.

Hvernig skiptir Grótta í lið?

Þegar þjálfarar Gróttu skipta í lið fyrir keppnir eru eftirfarandi atriði höfð í hávegum:

1. Hópnum sem er að fara að keppa er skipt eftir getu.

a) Iðkendur sem spila upp fyrir sig og stelpur sem spila með strákum er einnig skipt eftir getu. Það er ekki þannig að áðurnefndir aðilar fari sjálfkrafa í eitthvert ákveðið lið þar sem þeir séu „gestir“ í flokknum.

b) Ef að leikmaður sem spilar upp fyrir sig er að mati þjálfara svipaður að getu og leikmaður í flokknum skal leikmaður flokksins vera valinn í sterkari keppnisflokk ef sú staða kemur upp.

2. Í 5-manna bolta leitast Grótta við að hafa 0-1 varamann í keppni og í 7-manna bolta er æskilegt að hafa 1-2 varamenn í hverju liði.

3. Enginn iðkandi á „fast sæti“ í neinu liði. Þjálfarar Gróttu leitast því að færa leikmenn á milli liða þegar það á við. Gefa þeim sem skarað hafa fram úr í sínu liði erfiðari áskoranir í sterkari keppnisflokki og færa leikmenn sem hafa átt undir högg að sækja tækifæri til að njóta sín betur í auðveldari flokki.

4. Þjálfarar Gróttu leggja ekki ríka áherslu á liðaskiptingu við iðkendur sína. Mikilvægara er að kenna ákveðin grunngildi:

a) Að leggja sig alltaf fram þegar maður stígur inn á völlinn. Sama hvort maður er í A- eða G-liði

b) Við erum Grótta. Við erum saman í þessu og allir í félaginu okkar eru mikilvægir. Jafnt þeir sem leika með A-liðinu og G-liðinu.

c) Að vera í A-liði þegar þú ert 10 ára er engin ávísun á að þú verðir í úrvalsdeildinni 20 ára. Fólk blómstrar og þroskast á ólíkum tímum og því geta leikmenn í D-liði 5. flokks hæglega orðið A-liðsmenn þegar fram líða stundir.

Hvernig skiptir Grótta í lið?

Liðaskiptingar eru mörgum iðkendum mikið hjartans mál. Vini og vinkonur dreymir oft um að spila saman í liði og algengt er að börn bæði vanmeti og ofmeti getu sína. Sú staða getur því komið upp að iðkendur verði fyrir miklum vonbrigðum yfir því að vera ekki í „rétta“ liðinu. Því er brýnt að bæði þjálfarar og foreldrar reyni eftir fremsta megni að fyrirbyggja mikið svekkelsi og taki sömuleiðis rétt á vandamálum sem koma upp

Þjálfarar:

  • Byggja ekki upp óþarfa spennu fyrir liðsvali. Leggja heldur áherslu á gildin sem minnst er á í lið 4 hér að ofan
  • Ræða sérstaklega við iðkendur (og jafnvel foreldra þeirra) sem eru að færast á milli liða eftir langan tíma í sama liði. Útskýra ástæður breytinganna og benda á það jákvæða við að spila í liði ofar eða neðar.

Foreldrar:

  • Styðja starf þjálfarans heima fyrir með því að útskýra fyrir börnunum að „það er þjálfarinn sem ræður“. Minna um leið á gildin sem rætt er um hér að ofan. Passa að ræða ekki illa um þjálfarann eða aðra iðkendur í eyru barnanna
  • Hafa samband við þjálfara ef þá vantar útskýringar á tilteknum ákvörðunum